Hugsað út fyrir kassann!

Apple, Google og Microsoft eru talin verðmætustu vörumerki heims og tróna efst á helstu listum heims er mæla árangur og orðspor fyrirtækja. Slagorð Apple er; “think different” eða hugsaðu út fyrir kassann, óformlega slagorð Google er ; “Don’t be evil” eða ekki vera grimm/ur sem þýðir í raun vertu góður og slagorð Microsoft er; ”Empowering us all” eða valdefling fyrir alla. Slagorðin endurspegla stefnu fyrirtækjanna og eiga þau það sammerkt að hugsa út fyrir kassann, láta gott af sér leiða og efla samfélög. Þau eiga jafnframt það sameiginlegt að vera nýsköpunarfyrirtæki sem hafa sýnt samfélagsábyrgð í verki frá upphafi. Það að hugsa út fyrir kassann er uppspretta fyrir nýsköpun og framþróun hjá fyrirtækjum.

Liður i stefnu þessara félaga er að eiga samtal við samfélög, hagsmunaaðila og neytendur um stöðu og árangur frammtistöðuvísa sem félögin fylgja. Í því felst gagnsæi og á þann veg byggist upp traust gagnvart fyrirtækinu. Jafnframt hefur það mikil áhrif á ímynd og viðhorf almennings til fyrirtækisins.  Árangursríkasta leiðin til að miðla þessum upplýsingum er að fylgja alþjóða mælikvörðum líkt og Global Reporting Initiative (GRI). GRI er leiðandi á sviði skýrslugerðar um samfélagsábyrgð og birta 93% af 250 stærstu fyrirtækjum heims árlega GRI skýrslu þ.m.t. Apple, Google og Microsoft.

Mælingar stuðla að breytingum?

Snertifletir reksturs félaga við umhverfið og samfélagið eru margir. Leiðarvísar og mælikvarðar GRI einfalda fyrirtækjum að kortleggja þessa snertifleti og setja sér mælanleg markmið byggt á aðgerðum sem eru innleidd markvisst í starfsemina. Við innleiðingu á GRI þurfa fyrirtæki að fara í gegnum  naflaskoðun og þurfa iðulega að innleiða vissar breytingar til að ná settum markmiðum. Samtakamáttur stjórnenda og starfsmanna skiptir sköpum hvað varðar árangursríka innleiðingu á GRI mælikvörðum.

Alþjóðafyrirtæki eins og General Motors (GE) og Siemens hafa breytt sinni starfsemi vegna mælinga byggt á GRI. Aukin orkunýting og minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda telst nú sem hluti af kjarnastarfsemi félaganna. Þessi breyting hefur skilað sér í mikilli tekjuaukningu hjá báðum félögum. Sjálfbærniverkefni GE, Ecomagination hefur skilað GE 160 milljarða dollara í tekjur frá árinu 2005, stuðlað að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 34%, minnka notkun á vatni um 47% og sparað þannig 300 milljónir dollara. Mælikvarðar líkt og GRI hafa bæði áhrif á starfsemi fyrirtækja og hvernig þau miðla upplýsingum um hana. Sífellt fleiri alþjóðleg fyrirtæki samþætta upplýsingar um umhverfis- og samfélagsmál með fjárhagslegum upplýsingum í ársskýrslum sínum.

Samfélagsskýrslur hafa í gegnum árin verið unnar af eigin frumkvæði fyrirtækja en nú eru sífellt fleiri ríki sem skylda fyrirtæki að gefa upp þessar upplýsingar. Evrópusambandið vinnur nú að því að innleiða reglugerð um að fyrirtæki með fleiri en 500 starfsmenn skuli birta árlega samfélagsskýrslu með upplýsingum um umhverfis- og samfélagsmál, mannauðsmál, vinnu- og mannréttindi, aðgerðir gegn spillingu ofl. Við innleiðiningu á samfélagsábyrgð þurfa fyrirtæki að „hugsa út fyrir kassann“ og greina hvernig starfsemi og ákvarðanir félagsins hafa áhrif á umhverfi og samfélag. Fjölda rannsókna sýna fram á beinan efnahagslegan ávinning þess fyrir fyrirtæki að vera ábyrgt gagnvart umhverfi og samfélagi sem er jákvæður hvati til breytinga í átt að aukinni ábyrgð til hagsældar fyrir alla.    

Soffía Sigurgeirsdóttir

Previous
Previous

Fyrirtækjum gert skylt að upplýsa um meira en aðeins fjárhaginn

Next
Next

Fjölbreytileiki eflir atvinnulífið