Fjölbreytileiki eflir atvinnulífið

Rannsóknir sýna að aukið kynjajafnrétti á vinnustöðum auki arðsemi þeirra. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að teknar séu betri ákvarðanir á vinnustöðum þar sem að hlutföllin eru hvað jöfnust, bæði í stjórnum og í stjórnendahópnum. Jöfn kynjaskipting hefur einnig jákvæð áhrif á nýsköpun og því er ljóst að aukinn fjölbreytileiki eflir atvinnulífið. Viss vitundarvakning hefur átt sér stað í atvinnulífinu, bæði hér og erlendis, um mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði og aukna samfélagsábyrgð.

Hérlendis hafa átt sér mikilvæg framfararskref í þessum efnum, eitt þeirra eru lög um jafnt kynjahlutfall í stjórnum félaga sem haft hafa jákvæð áhrif á vinnumarkaði. Þrátt fyrir það eru

7,6%  óskýrður launamunur hér á landi samkvæmt rannsókn Hagstofu og aðgerðahóps um launajafnrétti um kynbundinn launamun. Þennan launamun má rekja til kynbundins vinnumarkaðar sem undantekningalaust er konum í óhag og skilar sér meðal annars í minni lífeyrisgreiðslum til kvenna. Í samstarfsáætlun ráðherra jafnréttismála á Norðurlöndum er tilgreint að jafnrétti kynjanna sé ein helst forsenda nýsköpunar og velferðar. Ísland er í fararbroddi í jafnréttismálum í heiminum og er mikil fyrirmynd öðrum þjóðum í þessum efnum. Þrátt fyrir það er enn verk að vinna sem gæti falið í sér stórkostleg tækifæri ef Ísland yrði fyrsta þjóðríkið sem útrýmdi þeim litla kynbundna launamun sem er enn til staðar. 

Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir eins og UN Women, Global Compact og Alþjóðabankinn hafa unnið markvisst að því að stuðla að auknu jafnrétti og tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins meðal annars í atvinnulífinu. Með aukinni þátttöku kvenna á vinnumarkaði væri hægt að draga verulega úr fátækt og efla hagsæld í heiminum. Jafnréttissáttmáli UN Women byggir á aðferðafræði sem hægt er að innleiða á auðveldan hátt og hefur hún verið samræmd við mælikvarða Global Reporting Initiative (GRI), alþjóðlegri skýrslugerð um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Við innleiðingu á Jafnréttissáttmálanum kemur staða kvenna innan fyrirtækis í ljós. Til að ná settum markmiðum þarf að innleiða breytingar og það kallar á framfarir meðal annars á sviði nýsköpunar. 

Fyrirtæki eru hvött til að hlúa að jafnréttismálum innan fyrirtækja og í samfélaginu, að mannréttindi séu ætíð virt og gætt sé að kynjajafnrétti í hvívetna. Ríflega tuttugu forstjórar og framkvæmdastjórar íslenskra fyrirtæki auk Stjórnarráðsins hafa skrifað undir sáttmálann, en á alþjóðavísu hafa um 1300 forstjórar fyrirtækja og stofnana skrifað undir hann.

UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins, Festa miðstöð um samfélagsábyrgð og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið settu Hvatningarverðlaun jafnréttismála á laggirnar árið 2014 til að verðlauna þau fyrirtæki sem ryðja brautina fyrir auknu jafnrétti á atvinnumarkaði. Verðlaunin eru veitt því fyrirtæki sem hefur stuðlað að auknum möguleikum beggja kynja til starfsframa, jöfnum launum kynjanna, jöfnum hlutföllum kynjanna í stjórnendastöðum og aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, tók á móti Hvatningarverðlaununum árið 2014 fyrir hönd síns fyrirtækis en hún, ásamt starfsmönnum þess, innleiddi miklar breytingar sem fólust í því að fjölga konum í hinum hefðbundnu karlastörfum. Árið 2015 hlaut Orkuveita Reykjavíkur verðlaunin. Í áliti dómnefndar kom fram að fyrirtækið hefði stigið veigamikil skref og væri í markvissri vinnu við að jafna stöðu kynjanna á öllum sviðum fyrirtækisins. Ennfremur kom fram að fyrirtækið legði ríka áherslu á að skapa umhverfi sem sé aðlaðandi fyrir bæði karla og konur að starfa í og hefur fyrirtækið stuðlað að framgöngu fjölda verkefna í samstarfi við menntastofnanir, til að fylgja eftir því markmiði að efla hlut kvenna í karllægum geira. Á þann hátt hefði náðst að bæta kynjahlutföll á öllum sviðum. 

Hvatningarverðlaun jafnréttismála voru veitt nýverið í þriðja sinn á fundinum, „Er pláss fyrir jafnrétti í nýsköpun“. Að fundinum stóðu þeir sömu og koma að Hvatningarverðlaunum. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra,  afhenti Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, Íslandsbanka Hvatningarverðlaunin í ár. Birna Einarsdóttir sagði af því tilefni að starfsfólk Íslandsbanka hefði unnið markvisst að því að stuðla að jafnrétti á vinnustaðnum og það væri þeirra trú að þetta markmið ætti að vera hluti af menningu Íslandsbanka. Hún talaði jafnframt um að launamunur kynjanna í íslensku atvinnulífi væri óásættanlegur og sagðist vona að fyrirtæki leggðu í þá vinnu að útrýma honum. Þess ber að geta að Íslandsbanki hlaut Gullmerki jafnlaunaúttektar PwC árið 2015. Í niðurstöðum dómnefndar kom fram að  Íslandsbanki leggði mikla áherslu á að kynna jafnréttisstefnu bankans fyrir nýjum starfsmönnum og stjórnendum til að tryggja þekkingu á áherslum fyrirtækisins strax í upphafi. Það var einnig tekið fram að bankinn hefði aukið áhuga og eflt konur í frumkvöðlastarfi með því að standa fyrir frumkvöðlanámskeiði og –keppni kvenna í samstarfi við Opna Háskólann í Reykjavík og FKA. Íslandsbanki hefur einnig styrkt sérstaklega þátttöku afrekskvenna í íþróttum. Þá voru fundir bankans í samstarfi við Ungar athafnakonur um jafnréttismál og ungt fólk afar vel sóttir og vöktu mikla athygli.

 Forstjórar fyrirtækja, líkt og forstjórar RIO Tinto Alcan, Orkuveitu Reykjavíkur og Íslandsbanka, þurfa að vera óhræddir við að brjóta niður múra sem tengjast kynjaskiptum störfum og kynjaskiptum fyrirtækjum. Í kjölfar slíkra breytinga uppskera fyrirtæki ríkulega.

 Soffía Sigurgeirsdóttir

Ráðgjafi og stjórnarkona í UN Women á Íslandi

Previous
Previous

Hugsað út fyrir kassann!

Next
Next

Aðgerða þörf í loftslagsmálum