Fyrirtækjum gert skylt að upplýsa um meira en aðeins fjárhaginn

Í janúar árið 2016 tóku lög um ársreikninga nr. 3/2006 breytingum í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 201/34/ESB. Meðal breytinga eru auknar kröfur um ófjárhagslega upplýsingagjöf í ársskýrslum fyrirtækja. Lögin ná til félaga sem tengjast almannahagsmunum (e. Public Interest Entity) og félaga sem falla undir 9. tölul. og d-lið 11. tölul. 2. gr. Um er að ræða stór félög með fleiri en 250 starfsmenn þar sem heildareignir eru yfir þrír milljarðar króna, og hrein velta yfir sex milljarðar króna. Enn fremur falla móðurfélög stórra samstæðna undir þessi lög. Markmiðið með þessari tilskipun er að stuðla að gegnsæi og aukinni samfélagsábyrgð fyrirtækja sem felst fyrst og fremst í því að auka sjálfbærni til lengri tíma litið, umhverfinu og samfélaginu til hagsbóta. Auknar upplýsingar um ófjárhagslega þætti í rekstri fyrirtækja gerir hagsmunaaðilum kleift að meta betur árangur fyrirtækja á sviði samfélagsábyrgðar.

Fyrirtækjum sem falla undir þessi lög ber að veita upplýsingar í ársskýrslu um stefnu þeirra í umhverfis-, samfélags- og starfsmannamálum samkvæmt 66. gr. d. ásamt lýsingu á megináhættum og ófjárhagslegum mælikvörðum þessara málaflokka. Fyrirtæki þurfa að gera grein fyrir hvaða þættir og mælikvarðar eru mikilvægir og hvernig það mat fer fram. Á þann veg að hægt sé að leggja mat á stöðu, þróun og áhrif starfsemi þeirra á þessa málaflokka. Fyrirtæki þurfa jafnframt að gefa upplýsingar um viðskiptalíkan sitt, gera grein fyrir stjórnarháttum og hvernig spornað sé við spillingar- og mútumálum. Enn fremur ber fyrirtækjum að birta stefnu sína í starfsmanna- og mannréttindamálum og lýsingu á samsetningu, fjölbreytileika og starfsemi stjórna. Ef fyrirtæki hafa ekki stefnu í samfélagsábyrgð ber þeim að gera rökstudda grein fyrir því í yfirliti stjórnar í ársreikningi.

Tilskipun Evrópusambandsins er í samræmi við alþjóðasamþykktir á sviði samfélagsábyrgðar um auknar kröfur til fyrirtækja á þessu sviði. Líkt og með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Global Compact sáttmálanum sem snýr að því að fyrirtæki axli ábyrgð og hugi markvisst að því að sporna við neikvæðum áhrifum af starfsemi þeirra á samfélag og umhverfi. Parísarsamkomulagið frá árinu 2015 fellur undir Rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og er markmið þess að stöðva aukningu gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og halda hnattrænni hlýnun innan við 2 gráður.

Umhverfismálin eru ofarlega á dagskrá vegna stöðu loftslagsmála í heiminum og eru fyrirtæki hvött af alþjóðastofnunum til að bregðast hratt við loftslagsbreytingum. Nýleg skýrsla IPPC sýnir hve ástandið er alvarlegt en síðustu fjögur ár voru heitustu fjögur ár frá upphafi mælinga og magn koltvísýrings í andrúmsloftinu hefur ekki verið meira í þrjár milljónir ára. Útlitið er dökkt en það er ljós í myrkrinu samkvæmt nýrri skýrslu, New Climate Economy Report, þar sem kemur fram að baráttan við loftslagsbreytingar geti skapað 65 milljónir starfa og hægt sé að koma í veg fyrir um 700 þúsund andlát vegna loftslagsbreytinga á ríflega 10 árum.

Liður í samfélagsábyrgð fyrirtækja er að birta upplýsingar um starfsemina og eiga þannig samtal við hagsmunaaðila. Global Reporting Initiative (GRI) er leiðandi staðall í samfélagsskýrslugerð og birta árlega þúsundir fyrirtækja um allan heim skýrslu, byggt á GRI-staðlinum. GRI-staðallinn nýtist fyrirtækjum í að kortleggja snertifleti starfseminnar á umhverfið og samfélagið og að setja sér markmið í átt að sjálfbærari rekstri. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir í tengslum við kortlagningu og mælingar á ófjárhagslegum upplýsingum felast heilmikil tækifæri í því að sýna ábyrga starfshætti og fylgja eftir mælikvörðum um sjálfbærni. Auk betri nýtingar á auðlindum felst mikill ávinningur í því að fylgja eftir mælikvörðum í átt að frekari sjálfbærni. Stjórnendur ábyrgra fyrirtækja eru líklegri til að horfa til framtíðar með langtímahagsmuni fyrirtækisins, orðspors­áhættu og sjálfbærni að leiðarljósi. Auk efnahagslegs ávinnings eflir það samkeppnishæfni fyrirtækja meðal annars á sviði áhættu- og gæðastýringar, jafnréttismála, vöruþróunar og nýsköpunar.

Soffía Sigurgeirsdóttir

Next
Next

Hugsað út fyrir kassann!